Tuesday, February 23, 2010

Jaws 2 (1975)

Þegar maður er yngri þá fær maður oft dellur. Ég man að frændi minn gerði ekki annað en að teikna risaeðlur á sínum yngri árum. En á meðan hann dundaði sér í því þá glápti ég á myndirnar um hákarlinn Jaws en það hafði einnig í för með sér gríðarlegan áhuga á Hvíthákörlum. Ég þori ekki alveg að tímasetja það þegar ég sé Jaws í fyrsta skiptið en ég gæti trúað að það væri í kringum 9-10 ára aldurinn. Ég heillaðist gjörsamlega af þessum Hákarli og var svo seigur að ná að taka upp myndirnar þegar þær voru sýndar í sjónvarpinu, án þess að mamma og pabbi vissu af. Spólurnar rötuðu svo oft og iðulega í tækið þegar skóladagurinn var búinn.

Ég reddaði mér nýlega öllum fjórum myndunum um Ókindina og er að hugsa um að taka þær allar í röð einhverja góða nótt í góðum hópi. Það verður að koma í ljós hvort það sé gerlegt að horfa á fjórar myndir, sem snúast í raun allar um það sama og enda flestar á sama hátt. Þetta væri því pínu eins og að horfa á eina rúmlega sjö tíma mynd um ofurvaxinn hvíthákarl sem kemur alltaf aftur og aftur og étur fólk.

Ég gat hins vegar ekki setið á mér og ákvað að skella annarri myndinni í gang í gærkvöldi. Ég var ekki alveg klár á því hvernig söguþráðurinn var í þessari mynd enda allar myndirnar eiginlega í einni kássu í hausnum á mér. Steven Spielberg kom ekki nálægt þessari mynd en hann sagðist ekki hafa neinn áhuga á að gera framhald af Jaws, því sennilega myndi það bara grafa undir þeirri ímynd sem Jaws og hann höfðu skapað. Þetta er eitthvað sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar, t.d. með myndina Green Street Holligans 2 sem gerði ekkert annað en að draga úr gæðum þeirri fyrstu. En Jaws 2 reyndist hins vegar ekki vera flopp og var nokkuð vinsæl þó hún hafi ekki komist með tærnar þar sem Spielberg og Jaws(myndin) höfðu hælana. Fram að 1980 var Jaws 2 sú framhaldsmynd sem hafði skilað hvað mestum hagnaði. Myndin var jafnframt dýrasta mynd sem Universal framleitt, en hún kostaði góðar 30 milljónir dollara.

Myndin fjallar, rétt eins og fyrsta myndin, um löglegrustjórann Martin Brody á tilbúnu bandarísku eyjunni Amity Island sem er aðallega sumarleyfisstaður. Sjórinn og sólin eru þar eitt helsta aðdráttarafl túrista til eynnar og þegar Brody fer að gruna að nýr hákarl sé mættur á svæðið, eru bæjaryfirvöld ekki fljót að reyna þagga niður í honum til að skemma ekki þeirra buiness. Þetta er næstum því nákvæmlega eins og í fyrstu myndinni. Hákarlinn fer rólega í sakirnar og tekur nokkra kafara, tvær stelpur og háhyrning úr umferð. Enginn lifandi hefur séð hákarlinn og þess vegna halda allir að Brody sé genginn af vitinu. Þau neyðast svo til þess að éta þau orð ofan í sig þegar hákarlinn gerir sig loks sýnilegan, og reynir þar að ráða niðurlögum unglinga í skemmtisiglingu. Myndin endar svo tiltölulega vel, þegar Brody drepur sinn annan hákarl á ferlinum með skemmtilegum hætti. Fólkið sem hann á að lifir allt af og allir skilja nokkuð sáttir frá. Mér fannst nokkuð gaman að taka eftir því að sjá hvernig senan þar sem hákarlinn er drepinn er byggð upp, því hún er mjög lík og í fyrstu myndinni. Siggi Palli sýndi okkur þar klippu þar sem einhversskonar mjög eldfimir gasskútar eru kynntir til sögunnar, áður en Brody notar þá svo til þess að sprengja hákarlinn í tætlur. Þetta er mjög svipað í mynd númer tvö því þar er rafmagnslínan kynnt til sögunnar snemma í myndinni þegar verið er að leita af leifum af slysinum á spíttbátnum. Báturinn er þá með einhversskonar króka til að draga eftir botninum og krækja í eitthvað bitastætt. Þarna í leitinni krækja þeir einmitt í rafmagslínuna og kynna hana þar með til sögunnar. Svo í lokaatriðinu þar sem Brody er að eiga við þessa króka til að draga bátabrök krakkana í land krækir hann í eina svona línu, sem hann notar loks til þess að ráða niðurlögum ókindarinnar með því að láta hana bíta í hana og steikjast.

Reyndar mynd úr Jaws 1, en þarna sést hákarlinn vel

Mér fannst virkilega gaman að sjá þessa mynd aftur eftir að hafa ekki séð hana í fjölda ára. Það var einnig gaman að sjá hvað tæknibrellu standardarnir hjá manni eru orðnir rosalega háir í dag, því þegar maður var yngri var maður ekkert að pæla í því að hákarlinn var ótrúlega plastlegur og fáránlega gervilegur. Ég var ekkert að láta það fara í taugarnar á mér og naut þess að horfa á myndina í staðinn. Að því leiti sjást gæði Jaws myndanna, þær eru tímalaus snilld.