Thursday, September 17, 2009

Another World (RIFF)

Reykjavík International Film Festival hófst í dag með pompi og prakt. Eftir að hafa farið yfir myndir dagsins var ákveðið að sjá myndina Another Planet í sal 4 í Háskólabíói klukkan 8. Bíófélagarnir að þessu sinni voru Pálmar og Saga en í salnum þekkti ég þó einhver andlit.


Myndin Another Planet eða „Másik bolygó“ er eftir ungverska heimildamyndaleikstjórann Moldovanyi Ferenc og kom hún út árið 2008. Í myndinni segir Ferenc sögu barna frá ýmsum löndum sem búa við ómannúðlegar aðstæður. Börnin sem koma fyrir eru frá Kongó, Mexikó, Kambódíu og Ekúador og öll eiga þau það sameiginlegt að búa við aðstæður sem ekkert barn í heiminum ætti að þurfa búa við. Þau fæðast fátæk og fátt annað en fátækt blasir við þeim á lífsleiðinni. Sum eru munaðarleysingjar en önnur þurfa að sjá fjölskyldum sínum pening og þann litla mat sem fæst fyrir hann. Sagan af stelpunni á ruslahaugunum er þá efst í huga en fyrir heilan dag á ruslahaugunum, týnandi plast og annað rusl, uppskar hún heilan dollara. Á haugunum vinnur hún við hættulegar aðstæður og segir hún m.a. frá því þegar hún sá krakka á sínum aldri týna lífi sínu á haugunum.

Það sem mér fannst einna sorglegasta við þessa mynd var að mörg af þessum börnum voru misþyrmd af eigin fjölskyldu. T.d. stelpan frá Mexíkó sem eyddi nóttinni í að selja sígarettur og tyggjó, eldaði mat fyrir bræður sína fyrir og eftir skóla og þvoði föt fjölskyldunnar. Þess á milli var hún laminn af móðurinni, sérstaklega eftir nætur þar sem illa gekk að selja. Manni finnst erfitt að trúa því og skilja að þvílíkt og annað eins misrétti geti átt sér stað í heiminum. Sagan af barnavændinu fannst mér virkilega sláandi. Litlar stelpur keyptar og misnotaðar af erlendum ferðamönnum. Og þar sem er vændi, þar er ávallt stutt í eiturlyfin, eina atkvarfið sem þessar ungu stelpur virðast geta leitað til.

Það er í rauninni voða lítið sem ég get sagt annað um myndina. Ákvað að láta það vera að skrifa um sögur allra barnanna heldur frekar að taka nokkur dæmi, enda ekkert vit í því að vera reyna endurskrifa þessar sögur í þessum pistli þar sem þær eru miklu áhugaverðari og átakanlegri á filmu. Myndir sem þessar eru mjög mikilvægar. Það er mjög erfitt að ímynda sér þennan heim enda er hann mjög fjarlægur, þess vegna er mikilvægt að fá innsýn inn í líf bágborrina til að koma sér aðeins niðrá jörðina og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, og kannski leggja eitthvað í gott málefni. Maður þarf nú kannski ekki að fara svo langt til að komast í tæri við svona heim. Í sumar í útskrifarferð MR á Marmaris kynntumst við litlum krökkum sem eyddu nóttinni við strandlengjuna þar sem aðal lífið var, og vigtuðu fólk fyrir smáaura. Maður gaf þeim oftast eitthvað en helst hefði maður viljað gefa þeim eitthvað að borða, enda gat ég ekkert vitað hvort peningurinn færi í að fæða fjölskyldur þeirra eða færi óskiptur til einhvers gæja sem „ætti“ þau og gerði þau út.

Monday, September 7, 2009

Topplistinn

Nú er ekki seinna vænna en að fara setja upp blogg um topplistann.


Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hversu erfitt verk þetta yrði. Síðustu vikuna er ég búinn að vera fara yfir kvikmyndir í hausnum á mér, og virkilega pæla í því hverjar stóðu uppúr. Eftir að hafa skipt ótal sinnum um skoðun þá náði ég loksins að negla niður 5 mynda lista sem ég var sáttur með. Eftir baráttuna við að finna þessar fimm myndir þá treysti ég mér hreinlega ekki til að raða þeim í einhverja ákveðna röð.

Green Street Hooligans (2005)

Þetta er sennilega sú mynd sem ég hef oftast horft á, ef litið er fram hjá gömlu Disney myndunum sem maður átti á VHS þegar maður var yngri og var ófeiminn við að láta rúlla. Þessi mynd gerist í Englandi, nánar tiltekið í Green Street hverfinu í London, en þetta hverfi hýsir einhverjar alræmdustu fótboltabullur Bretlandseyja. Klíkan gengur undir nafninu Green Street Hooligans og styðja þeir Íslendingaliðið West Ham United. Í byrjun myndarinnar kynnumst við Matt Buckner(Elijah Wood), háskólanema við Harvard háskóla í BNA. Fyrir tilverkan herbergisfélagans er Matt rekinn úr Harvard og neyðist hann til að fara yfir til Bretlands þar sem systir hans er að hefja nýtt líf. Þar kemst Matt í kynni við Pete(Charlie Hunnam) og hans ofbeldisfulla og spennusama líferni. Pete er hátt settur í klíkunni og kynnir Matt fyrir menningunni í kringum fótboltann á Englandi. Matt, sem aldrei hefur lifað aðra eins spennu, ánetjþessu líferni og lifir á brúninni hvern einasta dag. Að mínu mati hefur þessi mynd allt, hún er gríðarlega spennandi með öflugum slagsmálasenum, vel leikin og ekki verður kvartað yfir myndatöku. Þrátt fyrir að karlmennskan sé í hávegum höfð eru í henni miklar tilfinningar og sorleg atriði koma fyrir. Þetta gerir GSH að einni af minni uppáhaldskvikmynd en það er líklega einn þáttur sem kemur einnig sterkur inn, áhugi minn á enskri knattspyrnu og menningunni í kringum hana.

Á þessu ári kom út GSH 2. Þessa mynd ætla ég aldrei að sjá, enda hefur hún fengið hörmulega dóma og aðeins sögð draga úr gæðum þeirra fyrri.


American History X (1998)

Þessa mynd er sennilegast óþarfi að kynna nánar. Þegar ég var að leggja lokahönd á listann áttaði ég mig á því að það var alltof langt liðið síðan ég sá þessa mynd, svo 5 mín síðar var hún kominn í spilarann. Leikstjórinn Tony Kaye gerir hér virkilega góða hluti með leikarann Edward Norton í fararbroddi. Báðir fara á kostum í þessari átakalegu sögu um nýnasistann Derek og áhrifin sem hann hefur á sig og sína. Það er nokkuð gaman að bera sama þessar fyrstu tvær myndir á listanum mínum, því þær eru virkilega áþekkar. Derek(Edward Norton) er með virkilega sterkar skoðanir á lífinu og hefur sig í hátt uppi. Hann er hliðstæða Steve Dunham(Marc Warren) bróðir Pete í Green S. H. Báðir karakterar sjá ljósið og breyta skyndilega hegðun sinni til betri vegar en þegar upp er staðið enda þeir á að sjá ástvini sína í gröfinni, sbr þegar Danny og Pete deyja. Á sama hátt eru Danny og Pete áþekkir en báðir líta þeir á bróðir sinn sem fyrirmynd og taka upp allt eftir þeim. Þeim finnst einnig mjög erfitt að skilja þegar eldri bræðurnir kjósa að hefja nýtt líf. Þetta er mynd sem nær mér í hvert einasta skipti sem ég horfi á hana, því hún veitir mér innsýn inn í líf sem myndi öðruvísi aldrei fá að kynnast.


Coach Carter (2005)

Coach Carter fjallar körfuboltalið Richmond High School í Bandaríkjunum og þjálfarann Ken Carter, sem leikinn er af Samuel L. Jackson. Myndin er byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað í kringum 2000. Körfuboltaþjálfarinn Ken Carter tekur við stjórn körfuboltaliðs sem samanstendur af drengjum sem flestir eiga í miklum vandræðum utan vallar, í námi og er framtíð þeirra á reiki. Á hulstrinu má sjá qoute sem á mjög vel við efni myndarinnar: „It begins on the streets, it ends here“. Þó að myndin virðist vera í þessum Disney stíl, þar sem allt endar vel eftir miklar flækjur, þá er mjög óvænt þegar þeir enda á því að tapa síðasta og mikilvægasta leiknum. Það er einmitt það sem gefur henni þennan raunsæisblæ enda er hún byggð á sönnum atburðum. Í myndinni kynnumst við mörgum misjöfnum karakterum sem eru þó allir komnir vel á veg með að klúðra sínu lífi. Margir þeirra eiga erfitt með nám og sjá ekki fram á annað en að enda á götunni í röngum félagsskap. Einn er nú þegar kominn í þennan félagsskap og er kominn hættulega nálægt götunni. En að lokum ná þeir að snúa við blaðinu með hjálp þjálfarans Ken Carter, en Samuel L. Jackson útfærir þennan karakter snilldarlega. En eins og með Green Street Hooligans þá liggur þessi mynd alveg flöt í áhugasviði mínu, íþróttir, og skýrir það ef til vill af hverju hún er hér á þessum lista.

The Departed (2006)

Ég fór á þessa mynd í bíó og bjóst satt að segja ekki við neinu. Ég bjóst alls ekki við því að ég ætti eftir að vera límdur við skjáinn alveg frá upphafi til enda , þessi bíóferð var virkilega óvænt ánægja. Það er þó erfitt að segja ekki búast við neinu þegar mynd er jafn stjörnum prýdd og þessi. Nöfn á borð við Jack Nickholson, Matt Damon, Leo DiCaprio og Mark Wahlberg í einu og sömu myndinni, annað eins hefur varla sést. Myndin vann til fjölmargra verðlauna, t.d.fekk leikstjórinn Martin Scorsese bæði Óskarinn og Golden Globe verðlaunin fyrir bestu leiksjórnina. Söguþráðurinn verður ekki útskýrður í nokkrum línum enda fer þar fram ótrúlega snjöll flétta. Áhorfandinn þarf allan tímann að halda sér við efnið og láta hugann reika um hinar ýmsu flækjur sem flettast svo saman. Martin Scorsese er vel að þessum verðlaunum kominn enda hefði verið auðvelt að klúðra þessari mynd, sem hlýtur að hafa litið flókin út í handriti. Leikararnir fjórir sem ég nefndi hér fyrr stóðu allir fyrir sínu og sýndu það af hverju þeir eru með færustu og dáðustu leikurum Hollywood í dag.

Ferðalag keisaramörgæsanna (2005)

Ég var í gríðarlegum vafa hvort ég ætti að setja þessa mynd á listann minn, og jafnvel hvort hún ætti heima þar, enda bara klukkutíma heimildarmynd um mörgæsir. Ég ákvað þó að slá til þótt sumum eigi ugglaust eftir að þykja asnalegt að ég skuli nefna myndirnar American History X og Ferðalag Keisaramörgæsanna í sömu andrá og ég á örugglega eftir að hljóta einhver stríðnisskot en hvað um það ... Ef maður ætti að lýsa henni í nokkrum orðum þá myndi ég segja að hún væri ótrúlega tilfinningaþrungin og falleg. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við sjá lífshlaup og lífsbaráttu þessara dýra. Það sem er kannski mest heillandi við þessa mynd er myndatakan. Myndatakan sér á báti er eitthvað til að verða dolfallinn yfir. Mögnuð augnablik eru fönguð og svo ég steli setningu sem ég heyrði fyrir stuttu, þá er eins og mörgæsirnar sjálfar fái persónuleika, svo mögnuð er myndatakan. Enn og aftur er hér mynd sem snertir mitt áhugasvið. Af því sem ég horfi í sjónvarpinu, hvort sem eru þættir eða kvikmyndir, þá er fátt skemmtilegra en að komast í góða heimildarmynd um náttúruna og heiminn. Flestir hafa séð heimildarþættuna um Jörðina og heillast af því. Ég ætti því kannski að hafa þetta sæti á topplistanum fyrir allar þær frábæru heimildarmyndir/þætti sem ég hef séð, t.d. The Earth, The Universe og svo lengi mætti telja.

-Reynir