Reykjavík International Film Festival hófst í dag með pompi og prakt. Eftir að hafa farið yfir myndir dagsins var ákveðið að sjá myndina Another Planet í sal 4 í Háskólabíói klukkan 8. Bíófélagarnir að þessu sinni voru Pálmar og Saga en í salnum þekkti ég þó einhver andlit.
Myndin Another Planet eða „Másik bolygó“ er eftir ungverska heimildamyndaleikstjórann Moldovanyi Ferenc og kom hún út árið 2008. Í myndinni segir Ferenc sögu barna frá ýmsum löndum sem búa við ómannúðlegar aðstæður. Börnin sem koma fyrir eru frá Kongó, Mexikó, Kambódíu og Ekúador og öll eiga þau það sameiginlegt að búa við aðstæður sem ekkert barn í heiminum ætti að þurfa búa við. Þau fæðast fátæk og fátt annað en fátækt blasir við þeim á lífsleiðinni. Sum eru munaðarleysingjar en önnur þurfa að sjá fjölskyldum sínum pening og þann litla mat sem fæst fyrir hann. Sagan af stelpunni á ruslahaugunum er þá efst í huga en fyrir heilan dag á ruslahaugunum, týnandi plast og annað rusl, uppskar hún heilan dollara. Á haugunum vinnur hún við hættulegar aðstæður og segir hún m.a. frá því þegar hún sá krakka á sínum aldri týna lífi sínu á haugunum.
Það sem mér fannst einna sorglegasta við þessa mynd var að mörg af þessum börnum voru misþyrmd af eigin fjölskyldu. T.d. stelpan frá Mexíkó sem eyddi nóttinni í að selja sígarettur og tyggjó, eldaði mat fyrir bræður sína fyrir og eftir skóla og þvoði föt fjölskyldunnar. Þess á milli var hún laminn af móðurinni, sérstaklega eftir nætur þar sem illa gekk að selja. Manni finnst erfitt að trúa því og skilja að þvílíkt og annað eins misrétti geti átt sér stað í heiminum. Sagan af barnavændinu fannst mér virkilega sláandi. Litlar stelpur keyptar og misnotaðar af erlendum ferðamönnum. Og þar sem er vændi, þar er ávallt stutt í eiturlyfin, eina atkvarfið sem þessar ungu stelpur virðast geta leitað til.
Það er í rauninni voða lítið sem ég get sagt annað um myndina. Ákvað að láta það vera að skrifa um sögur allra barnanna heldur frekar að taka nokkur dæmi, enda ekkert vit í því að vera reyna endurskrifa þessar sögur í þessum pistli þar sem þær eru miklu áhugaverðari og átakanlegri á filmu. Myndir sem þessar eru mjög mikilvægar. Það er mjög erfitt að ímynda sér þennan heim enda er hann mjög fjarlægur, þess vegna er mikilvægt að fá innsýn inn í líf bágborrina til að koma sér aðeins niðrá jörðina og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, og kannski leggja eitthvað í gott málefni. Maður þarf nú kannski ekki að fara svo langt til að komast í tæri við svona heim. Í sumar í útskrifarferð MR á Marmaris kynntumst við litlum krökkum sem eyddu nóttinni við strandlengjuna þar sem aðal lífið var, og vigtuðu fólk fyrir smáaura. Maður gaf þeim oftast eitthvað en helst hefði maður viljað gefa þeim eitthvað að borða, enda gat ég ekkert vitað hvort peningurinn færi í að fæða fjölskyldur þeirra eða færi óskiptur til einhvers gæja sem „ætti“ þau og gerði þau út.
Thursday, September 17, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Hljómar átakanlega. Maður ætti að kíkja á hana.
ReplyDelete5 stig.