Thursday, October 29, 2009

Eagle vs Shark

Eagle vs Shark er Ný sjálensk gamanmynd frá árinu 2007. Ég rakst á trailer af henni fyrir nokkrum vikum og þar var m.a. komið inná það að þetta væri hin nýsjálenska Napoleon Dynamite. Í trailernum sá ég líka Jemaine Clement sem er litríkur leikari svo ekki sé meira sagt. Það hlaut því að vera þess virði að sjá þessa mynd.

Jemaine Clement er nýsjálenskur leikari, tónlistamaður, uppistandari, framleiðandi, leikstjóri og handritshöfundur. Það má því segja að hann fáist við sitt lítið af hverju þó hann sé þekktastur fyrir tónlistina, leik og uppistand. Uppruna sinn rekur Jemaine til Maori, sem er þjóðflokkur í Nýja Sjálandi af indjána uppruna. Hversu mikill sannleikur er í því verður að liggja milli hluta, en Jemaine fellur alveg undir þá týpu sem hefur gaman að gera grín af sér sjálfum og útliti sínu. Jemaine er sennilega frægastur fyrir þátt sinn í tvíeykinu Flight of the Conchords, en þar sá ég hann einmitt fyrst. Þar leikur Jemaine á móti Brett McKenzie og leika þeir sjálfa sig í þáttunum, en samt skáldlegar og ýktar útgáfur á sjáfum sér. Flight of the Conchrods tvíeykið á rætur að rekja til ársins 2002 og hafa þeir ferðast víða um og gefið út nokkra diska. Þættirnir eru á „söngleikjaformi“ og fjalla um þá félaga freista þess að lifa ameríska drauminn í stórborginni New York. Það gengur eitthvað erfiðlega og margt drífur á daga þeirra. Söngatriði eru svo stór partur af þessum þáttum.


Gott dæmi um Flight of the Conchords.


Kvikmyndin Eagle vs Shark fjallar um Lily, treggáfaða stúlku sem vinnur á skyndibitastað. Hún er yfir sig hrifinn af Jarrod, sem leikinn er af Jemaine. Jarrod vinnur í raftækjabúð ekki langt frá skyndibitastað Lily-ar, en hann er tölvunörd og álíka treggáfaður og Lily. Jemaine kemur eitt sinn inn á skyndibitastaðinn og fær afgreiðslu hjá Lily. Hún reynir að hrúga á hann allskonar ókeypis mat en Jarrod lætur stóran skammt af frönskum nægja. Jarrod lætur Lily fá boðskort í partý sem hún á að láta vinnufélaga sinn fá. Lily endar svo á því að mæta sjálf í partýið hans Jarrod. Þema partýsins var að allir áttu að mæta sem sitt uppáhalds dýr. Lily mætir sem hákarl en gestgjafinn Jarrod er í arnarbúningi. Þegar allir eru mættir hefst mót í tölvuleik, sem svipar mjög til Tekken. Gestirnir keppast um það að mæta Jarrod í úrslitaleik. Lily kemur öllum á óvart og vinnur sig inn í úrslitaviðureignina sem hún endar svo á að tapa. Með þessi hefur hún heillað Jarrod og þá er ekkert annað í stöðunni að að byrja saman. Þarna kemur titill myndarinnar.

Þar með fer aðal atburðarrás myndarinnar í gang. Jarrod lenti í slæmu einelti þegar hann var í skóla og hann tilkynnir Lily að hann þurfi að fara aftur til heimabæjarins og jafna sakirnar við eineltisseggina. Þau ferðast því til heimabæjarins og þar kynnist Lily fjölskyldu hans. Þar fáum við að sjá að Jarrod hafði alltaf staðið í skugga bróður síns sem var frábær í öllu. Hann var hins vegar dáinn og hafði faðir Jarrods ekki komist yfir það enn. Jarrod byrjar að æfa fyrir einvígi sitt og í millitíðinni hættir hann með Lily. Þegar Jarrod mætir í einvígið sér hann að óvinur hans er lamaður fyrir neðan mitti og bundinn í hjólastól. Jarrod virðist ætla að sjá að sér og hætta við allt saman en allt í einu leggur hann til atlögu og ræðst á bæklaða manninn. Þetta var ein fyndnasta sena myndarinnar, því Jarrod endar á að tapa slagnum. Í kjölfarið gerist svo eitthvað í hausnum á Jarrod og hann hættir að einbeita sér að því að leita viðurkenningar föður síns. Í ljós kemur svo að samband þeirra Lily-ar hefur styrkst og þau byrja aftur saman.

Ég gat haft gaman af þessari mynd þú hún sé vægt til orða tekið undarleg. Ég hafði virkilega af því að sjá Jemaine í kvikmynd og hann nær að gera þennan karakter alveg fáránlega kjánalega. Það var þó erfitt að horfa á þessa mynd á köflum, vegna þess að helmingurinn af persónunum voru álíka tregar og hæfileikaríkar í samskiptum og Barði Jóhannsson í Band Gang. Samtölin gátu því oft verið löng, hæg og stundum óþægilega pínleg. Maður þarf því að vera í ákveðinni stemingu þegar maður horfir á þessa mynd, létt skap er þar lykilatriði. Maður kæmist ekki langt inn í myndina ef maður ætlaði að horfa á hana með alvarlegu hugarfari. Niðurstaðan er því sú að þessi mynd er alveg ágætis skemmtun en alls ekki mynd sem maður horfir á aftur á aftur. Ætla að ljúka þessu á nokkrum frábærum qoute-um og vel völdum atriðum.

Lily: How did you find out where I live ?
Jarrod : I got my flatmate to ring up your work. Tell them it was an emergency. You probably shouldn't go in there, they think you're dead.
-------
Jarrod : You're a bitch and you're going to die of diabetes!
-------
Jarrod : Now we're all here, I'd just like to say that I'm really happy that we're all together under the same roof. It's always great to come home. And I'd also like to say that this Saturday I will be having a scheduled fight with Eric Elisi, the Samoan...
He was the toughest guy at our school. He used to pick on quite a few people, actually. Anyway, you're all invited to attend, it'd be great to see you there. Thank you.

Símtal
Slagurinn
Nokkur fyndin atriði
Þunglyndið

Friday, October 23, 2009

Green Mile

Green Mile (1999)
Þegar ég var að leita af mynd fyrir handritaverkefnið kom þessi mynd fyrst upp í hugann. Hafði ekki séð hana í háa herrans tíð og ætlaði að bæta úr því. Ég var hins vegar búinn að gleyma því hversu löng hún væri, heilir þrír tímar. Handritið hlaut því að vera eitthvað annað eins svo vegna tímaskorts ákvað ég að velja aðra mynd, sem reyndist svo vera Boondock Saints. Það var því svolítið gaman þegar ég rakst á þá frétt í síðustu viku að mynd númer tvö The Boondock Saints: All Saints Day væri einungis handan við hornið. Það væri því kannski gaman að komast yfir handritið og lesa áður en ég færi á hana í bíó. Þó svo ég hafi þurft að hætta við Green Mile var ég orðinn spenntur fyrir því að sjá hana aftur og ákvað að þetti yrði næsta mynd sem ég myndi blogga um.

The Green Mile er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Bandaríska rithöfundinn Stephen King frá árinu 1996. Myndin er leikstýrð af bandsríska Ungverjanum Frank Darabont. Hans frægustu myndir auk Green Mile eru Shawshank Redemptions og The Mist. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera byggðar á sögum eftir Stephen King. Myndin var tilnefnd til fjölmarga verðlauna þar á meðal fjögurra Óskarsverðlauna og Golden Globe verðlauna. Bar þar helst á tilnefningum Michael Clarke Duncan sem besti leikarinn fyrir frammistöðu sína og útfærslu á viðkvæma fanganum John Coffey. Frank Darabont hlaut einnig nokkrar tilnefningar fyrir handrit sitt. Titill myndarinnar vísar til síðustu mílunar sem fangarnir labba þegar þeir eru leiddir til aftöku í rafmagnsstólnum. Dúkurinn á gólfinu í fangelsisálmunni er ljósgrænn og þangað sækir Stephen King nafnið.
Myndin fjallar um endurminningar Paul Edgecomb sem kominn er á elliárin. Paul Edgecomb, leikinn af Tom Hanks, minnist þess þegar hann starfaði sem yfirfangavörður á aftökudeildinni í Cold Mountain fangelsinu í Lousiana. Paul segir söguna af því þegar nýr fangi, John Coffey, kom í vörslu hans og áhridin sem John hafði á hann. John Coffey hafði verið dæmdur til dauðarefsingar fyrir nauðgun og morð á tveimur litum hvítum stelpum. Um leið fáum við að sjá að John er viðkvæmur þegar hann spyr Paul hvort ljósin séu kveikt á næturnar, því hann þjáist af myrkfælni. John Coffey er svartur og tröll að burður. Á fyrsta samtali þeirra John og Pauls fáum við sjá að Paul nálgast fanganna með virðingu og hann ætlast til þess sama af þeim. Á grænu mílunni er góður og léttur andi, kannski ekki eitthvað sem maður hefði búist við. Honum er þó ógnað af fangaverðinum Percy Wetmore sem er með sífeld leiðindi og dólgslæti. Percy er tiltölulega nýr en hann hafði fengið starfið í gegnum klíku, hann er illa liðinn bæði af föngunum og hinum vörðunum.

John Coffey er gæddur þeim óvenjulega hæfileika að geta læknað fólk. Við kynnumst þessum heilunarhæfileika fyrst þegar John grípur í Paul Edgecomb og læknar hann af þvagfærasýkingu sem hafði þjakað hann. Þá fyrst sjáum við að það er eitthvað verulega óvenjulegt við þennan mann og byrjum að efast um að hann gæti gert svo mikið sem flugu mein. Sá grunur er síðar staðfestur þegar John endurlífgar músina mr Jingles með sömu töfrum, en Mr Jingles var mús sem fanginn Eduard "Del" Delacroix hafði tamið og tekið sem gæludýr. Eftir að John hefur endurlífgað músina segir hann setningu sem ég tel lykilsetningu myndarinnar: „I took it back“. Þetta var einmitt það sem hann sagði um atburðina sem hann var dæmdur fyrir, „I tried to take it back but it was too late“. Þegar múgurinn kom að honum alblóðugum með stelpurnar tvær í fanginu var hann hágrátandi, greinilega eftir misheppnaðar lífgunartilraunir. Þegar við heyrum þetta fáum við það staðfest að John er saklaus.

Þriðja kraftaverkið á sér svo stað á heimili fangelsisstjórans Hal Moores þegar John læknar dauðvona konu hans af heilaæxli. Eftir atvikið sjáum við að John er þjakaður og orkulaus. Þá gerum við okkur grein fyrir því að þegar hann læknar fólk tekur hann á sig mein þeirra. Út frá stórum örum á líkama hans getum við ályktað að hann hafi oft hjálpað fólki sem hefur lent í einhverjum hremmingum. John nær ekki að „hósta“ upp æxli konunnar en kemur því í staðinn á fangavörðinn Percy Wetmore, sem átti fátt annað skilið. Percy drepur svo fangann William "Wild Bill" Wharton í einhverri leiðslu, en við höfðum fengið að sjá að það var í raun hann sem myrti stelpurnar tvær. John Coffey spilar þarna einskonar Guða-leik þar sem hann ákveður örlög þeirra Percy og Wild Bill. Manni finnst það kannski svolítið óviðeigandi en það er ekki annað hægt en að taka stöðu með John í þessu máli. Einnig finnst manni það svolítið undarlegt að hann hafi valið að Wild Bill myndi deyja snöggum, óvæntum og frekar „sársaukalausum“ dauðdaga en mun meiri kvöld hefði falist í því að rotna í fangelsinu í einhver ár til viðbótar og þurfa bíða eftir því að vera tekinn af lífi í rafmagnsstólnum. John hefur þó líklega talið að þar sem Wild Bill hafði einungis verið til ama, bæði í fangelsinu og í lífinu, væri enginn ástæða fyrir því að tefja að dvöl hans í helvíti gæti hafist. Paul var tilbúinn að hlífa John en John valdi dauðan fram yfir flótta. Þessu er lýst í eftirfarandi klippu sem jafnframt er mín uppáhaldssena í myndinni.

Myndin Green Mile er tímalaus snilld sem á alltaf við í því ofbeldis-samfélagi sem við lifum í í dag. Þótt söguþráður hennar sé svolítið órtúlegur er boðskapur hennar hreinn og skýr og miðar að betri hegðun náungans gagnvart hinum náunganum. Michael Clarke Duncan átti svo sannarlega skilið allar þær tilnefningar og verðlaun sem hann hlaut fyrir þessa frammistöðu. Duncan nær að gera John Coffey, sem er tröll að burðum, að viðkvæmum, auðmjúkum kraftaverkamanni sem er allur af vilja gerður. Svipbrigðn og hlédrægni risans eru einstaklega eftirminnileg. Tom Hanks er einnig frábær í þessari mynd. Hlutverk ákveðna en jafnframt vinalega fangavarðarins á vel við Tom en þetta hlutverk er það fyrsta sem skýst upp í kollinn á mér þegar ég heyri talað um Tom Hanks, fyrir utan kannski Forest Gump.

Sunday, October 18, 2009

Heimavinna

Heimavinna helgarinnar var að lesa handrit af mynd og horfa svo á hana í leiðinni. Ég valdi myndina The Boondock Saints, var að sjá hana í annað skiptið en þó var orðið virkilega langt síðan síðast og var ég búinn að gleyma töluvert miklu. Ég googlaði handritið og fann þar eintak hérna. Ég copyaði það og setti í word og þar var það 100 bls, myndin var ca. 100 mínútur svo 10 bls fyrir 10 mín reglan passaði því ágætlega.

Það var bara nokkuð gaman að gera þetta verkefni. Þetta var ekki ósvipað því og að lesa bók og horfa síðan á myndina sem gerð var eftir bókinni. Samt var reginmunur á þessu tvennu. Í handritinu er allt einhvernveginn myndrænna og samtölin eru aðal framsetningarformið. Í stað ítarlega lýsinga í bókum er leikmyndin notuð í kvikmyndinni. Þess vegna er nóg að segja hvar senan fer fram, t.d. skítugt herbergi, bar eða eitthvað annað. Það eitt gefur mun meiri mynd af aðstæðunum en 1000 orða lýsing í bók.

Tók eftir því að í mínu tilfelli var stundum munur á handriti og kvikmyndinni. Til dæmis er skemmtilegt símtal við móður bræðranna í handritinu sem ekkert bólar svo á í myndinni. Einnig er senunum oft fléttað öðruvísi saman, og eiga sér stað fyrr eða seinna, t.d. þegar Rússajepparnir þrír mæta inn á barinn og þeir félagar tuska þá aðeins til. Það leiðir svo til fyrsta manndráps þeirra bræðra. Það sýnir að handritið er ekki endanlegt form og breytingar eru oft gerðar, eflaust til að fegra myndina, gera hana auðkiljanlegri eða jafnvel flóknari.

Annars var bara mjög gaman að prófa að horfa á mynd með þessari aðferð. Það var gaman að lesa um það hvernig Rocco drap óvart köttinn og ennþá skemmtilegra að sjá það svo gerast í myndinni (kettir eru ekki uppáhaldsdýrin mín). Hugsa þó að ég leggji þetta ekki í vana minn enda virkilega tímafrekt verk.

Tuesday, October 13, 2009

The Cats og Mirikitani

The Cats of Mirikitani (2006)

Í lok umfjöllunar um heimildarmyndir og heimildamyndagerð sýndi Siggi Palli okkur heimildamyndina The Cats of Mirkitani. Þökk sé danstíma í íþróttum náði ég að mæta á réttum tíma og ná þar með byrjun myndarinnar, eitthvað sem hefur ekki gerst oft í vetur.

The Cats og Mirikitani er heimildarmynd eftir Bandarísku heimildaleikstýruna Lindu Hattendorf. Hún hefur verið nokkuð farsæl í starfi og starfað í New York við gerð heimildamynda í yfir áratug. Myndin hefur unnið til fjölmargra verðlauna og verið vel tekið hvert sem hún hefur komið. Í myndinni segir Linda frá ótrúlegri sögu 85 ára bandaríska-japanans Jimmy Mirikitani. Lífshlaup Jimmys hefur verið einstaklega erfitt og hefur fólk brugðist honum á öllum vígstöðum. Bandaríkin fóru hvað verst með greyið Jimmy vegna þess í kjölfar stríðsins var tekinn af honum ríkisborgararétturinn auk þess sem hann og fjölskyldu hans steypt í kyrrsetningarbúðir fyrir Japani sem búsettir voru í Bandaríkin. Kjarnorkusprengjan sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Hirosima var svo til að setja punktinn yfir i-ið, en með henni var hoggið á rætur Jimmys í Japan.

Jimmy fæddist árið 1920 í Sacramento í Bandaríkjunum en fluttist sem barn til Japans þar sem hann ólst upp. Þegar hann var 18 ára snéri hann aftur til landsins sem hann fæddist í. Vegna Seinni heimstyrjaldarinnar tók líf Jimmys að breytast til verri vegar, eins og sagt var aðeins frá hér áðan. Jimmy er og var virkilega fær listamaður, og ungur hafði hann sett sér háleit markmið varðandi það. Málin þróuðust hinsvegar þannig að þegar Linda Hattendorf kemur að honum er hann búsettur á götunni og er gjörsamlega allslaus fyrir utan listina. Jimmy býr í New York, ekki langt frá þar sem Tvíburaturnarnir voru staðsettir. Jimmy eyðir nær öllum sínum tíma í að mála. Myndefni Jimmys eru aðallega kettir auk þess sem hann teiknar ófáar myndir af búðunum við Thule Lake sem hann var settur í í kjölfar stríðsins.

Leikstýran Linda Hattendorf gerir í þessari mynd hreint frábæra hluti. Það er ótrúlegt að sjá hvernig eitt leiðir af öðru, en það er eitthvað sem einkennir áhugaverðar heimildarmyndir. Linda gat einungis órað fyrir því þegar hún byrjaði að taka líf Jimmys upp, að einhverjum mánuðum seinna yrði hann fluttur inn til hennar og svo seinna fluttur í sína eigin íbúð. Það hefði svo lítið þurft að gerast til að ekkert yrði úr myndinni. Jimmy hefði vel getað verið lokaðri, Linda óþolinmæðari o.s.frv. Það sem mér fannst mest heillandi var hvernig myndin þróaðist, frá upphafi til enda, svolítið eins og snjóbolti sem rúllar niður brekku og safnar á sig meiri og meiri snjó. Í gegnum myndina kynnumst við bæði Jimmy og Lindu aðeins betur. Þegar boltinn er farinn af stað fáum við svo að sjá hvernig Jimmy nær að greiða úr sínu lífi, finnur gamla vini, gamla ættingja, byrjar að vinna launaða vinnu, fær ríkisborgararéttinn sinn aftur og flytur svo í sína eigin íbúð. Það er líka stórkostlegt að sjá hvernig Linda vinnur sér inn traust Jimmys, sbr setningu hans snemma í myndinni þar sem hann segir „You go now“. Seinna í myndinni er svo málunum öðruvísi háttað þegar hann verður áhyggjufullur þegar Linda kemur ekki heim á tilsettum tíma. Myndin endar svo á því að Jimmy fer aftur til Thule Lake búðanna og nær endanlega að losa við drauga fortíðarinnar.

Saturday, October 3, 2009

RIFF samantekt

Nú þegar kvikmyndahátíðinni RIFF er lokið er ekki úr vegi líta aðeins til baka og fjalla um það sem maður sá. Á RIFF sá ég eftirtaldar myndir og eru þær í röð frá þeirri bestu til hinnar verstu.
1. One Flew Over the Cuckoo‘s Nest (Q-A)
2. Dead Snow
3. Rocky Horror
4. Stingray Sam
5. Another Planet
6. Dog Tooth
7. Red Race
8. Antichrist
9. Prodigal Sons (Q-A)
10. For the Love of Movies (Málþing)
Eins og kannski sést á þessum lista þá voru myndirnar sem ég sá á hátíðinni ekki beint í hæsta gæðaflokki, sbr 5. sæti og niður. Það er því kannski svoldið kaldhæðnislegt að sjá gömlu myndirnar í efstu sætunum en þær stóðu algjörlega fyrir sínu. Það er nú kannski ekki sanngjarnt að bera saman þessar klassísku myndir við hinar myndirnar en fyrir mig þá björguðu þær hátíðnni, þó Dead Snow hafi komi skemmtilega á óvart. Hér á eftir ætla ég að taka nokkrar myndir fyrir, en umfjöllun um Another Planet má sjá í blogginu á undan.

One Flew Over the Cuckoo‘s Nest (1975)
Fyrir mér þá trónir þessi mynd langefst á toppi listans míns. Hinar myndirnar komast ekki með tærnar þangað sem þessi hefur hælana. Svo ég byrji nú á því að viðurkenna það þá var þetta í fyrsta skiptið sem ég sá þessa mynd. Hef ekki ennþá komist að niðurstöðu hvort það hafi verið slæmt eða gott því að sjá hana í fyrsta skipti í stærsta salnum í Háskólabíó, þar sem ótrúleg steming myndaðist í salnum, var sér á báti upplifun. Held ég sé bara feginn að hafa séð hana fyrst þarna frekar en að horfa hana í tölvunni eða 21“ sjónvarpinu mínu. Ég man ekki eftir að hafa labbað útúr bíósal jafn alsæll og ég var þarna, og ekki skemmdi fyrir að meistarinn sjálfur Milos Forman var viðstaddur, tilbúinn að svara spurningum að mynd lokinni.
Jack Nickholson er með stórbrotna frammistöðu í þessari mynd og útfærir karakterinn McMurphy af sinni einstöku snilli. Myndin er gerð eftir skáldsögu Ken Kesey. Milos Forman fer hinsvegar aðra leið í mynd sinni þar sem hann hann segir frá og fylgir í raun mest McMurphy og því sem gerist í kringum hann. Á meðan er skáldsagan sögð frá sjónarhóli þagmælska indjánans. Hvort tveggja hentar í raun sínu formi betur, því eins og Milos sagði sjálfur, þá hefði verið erfitt að búa til mynd og hafa hana algjörlega frá sjónarhóli indjánans. Á sama hátt hefði skáldsagan örugglega ekki fengið að njóta sín jafn vel, ef ekki hefði verið fyrir það að lesandinn fær að heyra hugsanir indjánans, sem hafa ugglaust verið forvitnilegar.

Rocky Horror Picture Show (1975)
Rocky Horror Picture Show er grín-söngleikjamynd sem þarf varla að kynna nánar. Þetta var síðasta myndin sem ég sá á hátíðinni og var það bara fínt að loka þessari hátíð með þessari mynd. Eins og með myndina One Flew Over the Cuckoo‘S Nest þá er ég svolítið ósjóaður og hafði aldrei séð myndina sjálfa, þó ég hafi nú farið á leikritið fyrir nokkrum árum. Ég þekkti því persónurnar og söguþráðinn. Eitt mesta svekkelsi hátíðarinnar var að missa af búningasýningunni á þessari mynd en ég hefði ekki getað komist á hana fyrir mitt litla líf vegna anna í skólanum.
Annars er þessi mynd bara frábær í næstum alla staði. Söguþráðurinn er léttgjéggaður og skemmtilegur. Tónlistin er frábær og skemmtilegustu hlutar myndarinnar eru þegar söngatriðin fara af stað og mynda ótrúlega hresst andrúmsloft.

For the Love of Movies (Málþing)
Ég hugsa að ég sé ekkert að fara of hart í sakirnar þegar ég segi að þetta sé leiðinlegasta mynd sem ég hef á ævinni séð. Hún á allavega sæti á bottom 5 listanum. Þessi mynd er eftir Gerals Peary, þekktan kvikmyndagagnrýnanda. Þetta er hans fyrsta mynd og fjallar hún um sögu kvikmyndagagnrýnar, allt frá því hvernig þetta hófst þegar kvikmyndir fóru fyrst að sjást og hvernig hún hefur þróast í gegnum áratugina. Satt að segja þá var ekkert við þessa mynd sem heillaði mig. Kannski var það vegna þess að ég hef ekki minnstan áhuga á sögu kvikmyndagagnrýni, en þessi mynd náði bara aldrei til mín. Ég hefði haft meiri not af þessari mynd hefði kannski 30 % myndarinnar fjallað um söguna en 70 % um það hvernig það er að vera kvikmyndagagnrýnandi í dag, hvernig á maður að hugsa þegar maður gagnrýnir, hvernig getur maður orðið betri kvikmyndagagnrýnandi o.s.frv. Þó þessi mynd hafi ekki náð til mín gat ég séð andlit í salnum sem fylgdust með með miklum ákáfa og fengu glampa í augun þegar Gerald svaraði spurningum salarins. Þetta sýnir kannski hvað mismunandi áhugasvið hafa mikið að segja þegar kemur að kvikmyndum, en þessi mynd var allavega mín versta reynsla af RIFF þetta árið.

Mér fannst Peary líta svoldið Smart-Ass út þegar hann svaraði spurningunum, kannski hefur hann efni á því. Ég er allavega ekki rétti maðurinn til að dæma um það.

En á RIFF sá ég mikið af athyglisverðum myndum þó þær væru ekkert endilega góðar. Red Race, heimaildamynd um kínverska fimleikakrakka var virkilega athyglisverð þó hún hefði getað verið útfærð á betri hátt. Prodidgal Sons var einnig virkilega áhugaverð og líkist helst Skáldsögu á tímabili. Annars var ég bara mjög sáttur með þessa hátíð og sé ekki eftir að hafa fjárfest í passa.