Tuesday, October 13, 2009

The Cats og Mirikitani

The Cats of Mirikitani (2006)

Í lok umfjöllunar um heimildarmyndir og heimildamyndagerð sýndi Siggi Palli okkur heimildamyndina The Cats of Mirkitani. Þökk sé danstíma í íþróttum náði ég að mæta á réttum tíma og ná þar með byrjun myndarinnar, eitthvað sem hefur ekki gerst oft í vetur.

The Cats og Mirikitani er heimildarmynd eftir Bandarísku heimildaleikstýruna Lindu Hattendorf. Hún hefur verið nokkuð farsæl í starfi og starfað í New York við gerð heimildamynda í yfir áratug. Myndin hefur unnið til fjölmargra verðlauna og verið vel tekið hvert sem hún hefur komið. Í myndinni segir Linda frá ótrúlegri sögu 85 ára bandaríska-japanans Jimmy Mirikitani. Lífshlaup Jimmys hefur verið einstaklega erfitt og hefur fólk brugðist honum á öllum vígstöðum. Bandaríkin fóru hvað verst með greyið Jimmy vegna þess í kjölfar stríðsins var tekinn af honum ríkisborgararétturinn auk þess sem hann og fjölskyldu hans steypt í kyrrsetningarbúðir fyrir Japani sem búsettir voru í Bandaríkin. Kjarnorkusprengjan sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Hirosima var svo til að setja punktinn yfir i-ið, en með henni var hoggið á rætur Jimmys í Japan.

Jimmy fæddist árið 1920 í Sacramento í Bandaríkjunum en fluttist sem barn til Japans þar sem hann ólst upp. Þegar hann var 18 ára snéri hann aftur til landsins sem hann fæddist í. Vegna Seinni heimstyrjaldarinnar tók líf Jimmys að breytast til verri vegar, eins og sagt var aðeins frá hér áðan. Jimmy er og var virkilega fær listamaður, og ungur hafði hann sett sér háleit markmið varðandi það. Málin þróuðust hinsvegar þannig að þegar Linda Hattendorf kemur að honum er hann búsettur á götunni og er gjörsamlega allslaus fyrir utan listina. Jimmy býr í New York, ekki langt frá þar sem Tvíburaturnarnir voru staðsettir. Jimmy eyðir nær öllum sínum tíma í að mála. Myndefni Jimmys eru aðallega kettir auk þess sem hann teiknar ófáar myndir af búðunum við Thule Lake sem hann var settur í í kjölfar stríðsins.

Leikstýran Linda Hattendorf gerir í þessari mynd hreint frábæra hluti. Það er ótrúlegt að sjá hvernig eitt leiðir af öðru, en það er eitthvað sem einkennir áhugaverðar heimildarmyndir. Linda gat einungis órað fyrir því þegar hún byrjaði að taka líf Jimmys upp, að einhverjum mánuðum seinna yrði hann fluttur inn til hennar og svo seinna fluttur í sína eigin íbúð. Það hefði svo lítið þurft að gerast til að ekkert yrði úr myndinni. Jimmy hefði vel getað verið lokaðri, Linda óþolinmæðari o.s.frv. Það sem mér fannst mest heillandi var hvernig myndin þróaðist, frá upphafi til enda, svolítið eins og snjóbolti sem rúllar niður brekku og safnar á sig meiri og meiri snjó. Í gegnum myndina kynnumst við bæði Jimmy og Lindu aðeins betur. Þegar boltinn er farinn af stað fáum við svo að sjá hvernig Jimmy nær að greiða úr sínu lífi, finnur gamla vini, gamla ættingja, byrjar að vinna launaða vinnu, fær ríkisborgararéttinn sinn aftur og flytur svo í sína eigin íbúð. Það er líka stórkostlegt að sjá hvernig Linda vinnur sér inn traust Jimmys, sbr setningu hans snemma í myndinni þar sem hann segir „You go now“. Seinna í myndinni er svo málunum öðruvísi háttað þegar hann verður áhyggjufullur þegar Linda kemur ekki heim á tilsettum tíma. Myndin endar svo á því að Jimmy fer aftur til Thule Lake búðanna og nær endanlega að losa við drauga fortíðarinnar.

1 comment:

  1. Ekki gleyma því að Jimmy var líka einka-kokkur Jackson Pollock um tíma.

    Fín færsla. 6 stig.

    ReplyDelete