Green Mile (1999)
Þegar ég var að leita af mynd fyrir handritaverkefnið kom þessi mynd fyrst upp í hugann. Hafði ekki séð hana í háa herrans tíð og ætlaði að bæta úr því. Ég var hins vegar búinn að gleyma því hversu löng hún væri, heilir þrír tímar. Handritið hlaut því að vera eitthvað annað eins svo vegna tímaskorts ákvað ég að velja aðra mynd, sem reyndist svo vera Boondock Saints. Það var því svolítið gaman þegar ég rakst á þá frétt í síðustu viku að mynd númer tvö The Boondock Saints: All Saints Day væri einungis handan við hornið. Það væri því kannski gaman að komast yfir handritið og lesa áður en ég færi á hana í bíó. Þó svo ég hafi þurft að hætta við Green Mile var ég orðinn spenntur fyrir því að sjá hana aftur og ákvað að þetti yrði næsta mynd sem ég myndi blogga um.
The Green Mile er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Bandaríska rithöfundinn Stephen King frá árinu 1996. Myndin er leikstýrð af bandsríska Ungverjanum Frank Darabont. Hans frægustu myndir auk Green Mile eru Shawshank Redemptions og The Mist. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera byggðar á sögum eftir Stephen King. Myndin var tilnefnd til fjölmarga verðlauna þar á meðal fjögurra Óskarsverðlauna og Golden Globe verðlauna. Bar þar helst á tilnefningum Michael Clarke Duncan sem besti leikarinn fyrir frammistöðu sína og útfærslu á viðkvæma fanganum John Coffey. Frank Darabont hlaut einnig nokkrar tilnefningar fyrir handrit sitt. Titill myndarinnar vísar til síðustu mílunar sem fangarnir labba þegar þeir eru leiddir til aftöku í rafmagnsstólnum. Dúkurinn á gólfinu í fangelsisálmunni er ljósgrænn og þangað sækir Stephen King nafnið.
Myndin fjallar um endurminningar Paul Edgecomb sem kominn er á elliárin. Paul Edgecomb, leikinn af Tom Hanks, minnist þess þegar hann starfaði sem yfirfangavörður á aftökudeildinni í Cold Mountain fangelsinu í Lousiana. Paul segir söguna af því þegar nýr fangi, John Coffey, kom í vörslu hans og áhridin sem John hafði á hann. John Coffey hafði verið dæmdur til dauðarefsingar fyrir nauðgun og morð á tveimur litum hvítum stelpum. Um leið fáum við að sjá að John er viðkvæmur þegar hann spyr Paul hvort ljósin séu kveikt á næturnar, því hann þjáist af myrkfælni. John Coffey er svartur og tröll að burður. Á fyrsta samtali þeirra John og Pauls fáum við sjá að Paul nálgast fanganna með virðingu og hann ætlast til þess sama af þeim. Á grænu mílunni er góður og léttur andi, kannski ekki eitthvað sem maður hefði búist við. Honum er þó ógnað af fangaverðinum Percy Wetmore sem er með sífeld leiðindi og dólgslæti. Percy er tiltölulega nýr en hann hafði fengið starfið í gegnum klíku, hann er illa liðinn bæði af föngunum og hinum vörðunum.
John Coffey er gæddur þeim óvenjulega hæfileika að geta læknað fólk. Við kynnumst þessum heilunarhæfileika fyrst þegar John grípur í Paul Edgecomb og læknar hann af þvagfærasýkingu sem hafði þjakað hann. Þá fyrst sjáum við að það er eitthvað verulega óvenjulegt við þennan mann og byrjum að efast um að hann gæti gert svo mikið sem flugu mein. Sá grunur er síðar staðfestur þegar John endurlífgar músina mr Jingles með sömu töfrum, en Mr Jingles var mús sem fanginn Eduard "Del" Delacroix hafði tamið og tekið sem gæludýr. Eftir að John hefur endurlífgað músina segir hann setningu sem ég tel lykilsetningu myndarinnar: „I took it back“. Þetta var einmitt það sem hann sagði um atburðina sem hann var dæmdur fyrir, „I tried to take it back but it was too late“. Þegar múgurinn kom að honum alblóðugum með stelpurnar tvær í fanginu var hann hágrátandi, greinilega eftir misheppnaðar lífgunartilraunir. Þegar við heyrum þetta fáum við það staðfest að John er saklaus.
Þriðja kraftaverkið á sér svo stað á heimili fangelsisstjórans Hal Moores þegar John læknar dauðvona konu hans af heilaæxli. Eftir atvikið sjáum við að John er þjakaður og orkulaus. Þá gerum við okkur grein fyrir því að þegar hann læknar fólk tekur hann á sig mein þeirra. Út frá stórum örum á líkama hans getum við ályktað að hann hafi oft hjálpað fólki sem hefur lent í einhverjum hremmingum. John nær ekki að „hósta“ upp æxli konunnar en kemur því í staðinn á fangavörðinn Percy Wetmore, sem átti fátt annað skilið. Percy drepur svo fangann William "Wild Bill" Wharton í einhverri leiðslu, en við höfðum fengið að sjá að það var í raun hann sem myrti stelpurnar tvær. John Coffey spilar þarna einskonar Guða-leik þar sem hann ákveður örlög þeirra Percy og Wild Bill. Manni finnst það kannski svolítið óviðeigandi en það er ekki annað hægt en að taka stöðu með John í þessu máli. Einnig finnst manni það svolítið undarlegt að hann hafi valið að Wild Bill myndi deyja snöggum, óvæntum og frekar „sársaukalausum“ dauðdaga en mun meiri kvöld hefði falist í því að rotna í fangelsinu í einhver ár til viðbótar og þurfa bíða eftir því að vera tekinn af lífi í rafmagnsstólnum. John hefur þó líklega talið að þar sem Wild Bill hafði einungis verið til ama, bæði í fangelsinu og í lífinu, væri enginn ástæða fyrir því að tefja að dvöl hans í helvíti gæti hafist. Paul var tilbúinn að hlífa John en John valdi dauðan fram yfir flótta. Þessu er lýst í eftirfarandi klippu sem jafnframt er mín uppáhaldssena í myndinni.
Myndin Green Mile er tímalaus snilld sem á alltaf við í því ofbeldis-samfélagi sem við lifum í í dag. Þótt söguþráður hennar sé svolítið órtúlegur er boðskapur hennar hreinn og skýr og miðar að betri hegðun náungans gagnvart hinum náunganum. Michael Clarke Duncan átti svo sannarlega skilið allar þær tilnefningar og verðlaun sem hann hlaut fyrir þessa frammistöðu. Duncan nær að gera John Coffey, sem er tröll að burðum, að viðkvæmum, auðmjúkum kraftaverkamanni sem er allur af vilja gerður. Svipbrigðn og hlédrægni risans eru einstaklega eftirminnileg. Tom Hanks er einnig frábær í þessari mynd. Hlutverk ákveðna en jafnframt vinalega fangavarðarins á vel við Tom en þetta hlutverk er það fyrsta sem skýst upp í kollinn á mér þegar ég heyri talað um Tom Hanks, fyrir utan kannski Forest Gump.
Friday, October 23, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Fín færsla. 7 stig.
ReplyDelete