Friday, December 4, 2009

The Fighting (2009)

The Fighting er bandarísk bardagamynd/rómantísk mynd sem kom út nú í sumar. Titilinn gefur fyrirheit um öfluga bardagamynd sem á eftir að skilja 99% karlmanna eftir með testósterónið í botni. Ég las það meira að segja aftan á DVD disknum þegar ég sá hana út í búð, að þetta væri mynd í anda Fight Club. Það eru býsna stór orð og þegar kom á daginn voru það alls ekki orð að sönnu. Þetta reyndist vera hin mesta kettlingamynd og meira um einhverjar rómantískar senur en einhver alvöru bardagaatriði.

Myndin fjallar um Shawn Mc Arthur sem leikinn er af Channing Tatum. Channing er frægastur fyrir þátt sinn í Step Up og She´s the man frá árinu 2006 en upp á síðkastið hefur hann verið að færa sig upp á skaftið og verið að leika í ögn harðari myndum, s.s. þessari, Puplic Enemies og G.I Joe. Shawn er bláfátækur ungur maður sem býr í stórborginni New York. Í fyrstu senunum fáum við að sjá að Shawn er mjög kurteis maður en þráðurinn í honum er einstkalega stuttur. Það fáum við að sjá þegar hann er að selja bækur og drasl á götunni, að aðrir ungir sölumenn sem „eiga“ þetta horn veitast að honum og Shawn endar á að ganga í skrokk á þeim. Sá sem gerir hina sölumennina út, veitir Shawn eftirtekt og sér að þarna er toppbardagamaður á ferð. Stuttu seinna rekast þeir á hvorn annan og hann býðst til að vera umboðsmaður hans Shawn og verða honum út um bardaga þar sem hann getur þénað töluverðum upphæðum á stuttum tíma. Shawn fær sinn fyrsta bardaga og hann sigrar hann með heppni. Hann sýnir það samt í þessum bardaga að það að gefast upp er ekki til í hans orðaforða. Á næstu vikum berst hann í tveimur bardögum og færist upp metorða stigann. Í millitíðnni flyst hann inn til umboðsmannsins auk þess sem frekar súr ástarsaga tvinnast inn í þetta. Hann kynnist barþjóninum Zulay sem hann hafði reynt að selja fake-útgáfu af Harry Potter þennan örlagaríka dag á götuhorninu.

Umboðsmaðurinn Harvey (Terrence Howard) reddar honum núna bardaga við stórmeistarann sem myndi skila honum 100 þúsund dollurum. Harvey stefnir á að fixa úrslitin, þ.e. veðja á móti Shawn og láta hann tapa. Shawn tekur illa í þetta en sættist þó á það að lokum þar sem þetta er peningur sem hann þarfnast. Zulay er fengin til að fara með 500 þús dollara og veðja gegn Shawn. Shawn fer í bardagann, vinnur hann svo með herkjum. Harvey heldur að líf hans sé nú úti þar sem hann skuldi nú vafasömum veðmöngurum út í bæ pening en svo kemur á daginn að Zulay hafi breytt veðmálinu og þau hafi nú unnið 1 milljón dollara. Myndin endar svo á því að Shawn flyst með sinni heittelskuðu frá New York og á heimaslóðir´.

Myndin hefur fengið einkunnina 5.2 á IMDB og það kemur mér ekkert á óvart. Mér fannst söguþráðurinn virkilega spennandi í byrjun myndarinnar og ég taldi mig vera kominn út í eitthvað alvöru. Hann tekur hins vegar snarpa beygju og verður á augabragði hallærislegur og leiðinlegur. Allt sem gerist er frekar óspennandi og fyrirsjáanlegt. Það fór einnig mjög í taugarnar á mér að Shawn var ekkert sannfærandi í sínum fyrsta bardaga og vinnur hann með heppni. Í næsta bardaga kemur hann tvíelfdur og sigrar mun sterkari andstæðing, án þess að hafa æft sig neitt í millitíðinni. Hann berst 4 bardaga í þessari mynd og allir eru þeir mjög áreynslulausir. Það hefði því kannski verið betra að hafa nokkrar Rocky senur þar sem hann er að æfa sig og undirbúa sig fyrir bardagana, ekki bara mæta í þá og vera allt í einu orðinn fáránlega góður. Mér fannst samt Channing vera mjög góður í sínu hlutverki, og það hefði verið gaman að sjá hann blómstra svona í mynd með betra handrit og söguþráð.

Mistök og annað skemmtilegt um myndina
  • Í loka bardagasenunni klæðir Evan Hailey sig tvisvar úr skyrtunni
  • Shawn stígur úr út bíl og er greinlega með 2 sár á andliti. Hann gengur svo inn á næturklúbb og í næstu senu inn á næturklúbbnum eru sárin horfin
  • Í einni veitingastaðssenu má sá mic-inn koma inn í mynd
  • Leikarinn Channing Tatum lenti í því að nefbrotna við tökur á einu bardagaatriðinu

1 comment: