Monday, November 30, 2009

Walk the line (2005)

Í tilefni þess að tveimur jólaprófum í stærðfræði var lokið og býsna súr helgi afstaðin ákvað ég að hafa smá griðarstund og leggjast yfir mynd. Myndin sem varð fyrir valinu var Walk The Line frá árinu 2005 sem ég var svo sniðugur að gefa pabba mínum í jólagjöf á DVD eitthvert árið. Myndin segir frá lífi söngvarans Johnny Cash sem flestir ættu að kannast við. Jonny Cash er af mörgum talinn einn árhrifamesti tónlistamaður 20. aldarinnar. Hann fékkst mest við sveitamúsík, en lög hans bera einnig keim af mörgum öðrum greinum, svosem rockabilly, blús, gospel o.s.frv. Johnny er frægur fyrir sýna einstaklegu djúpu, en samt fallegu rödd og hann gerði lög á borð við Ring of fire, Folsom prison blues og svo auðvitað Walk the Line, sem myndin heitir augljóslega eftir, ódauðleg.

Joaquin Phoenix leikur Johnny Cash og gerir hann það virkilega sannfærandi. Leikstjórinn James Mangold tók það ekki í mál að láta einhverja aðra syngja lögin fyrir leikarana og þurfi því Joaquin að gera sitt besta til að leika eftir meistaranum Johnny Cash. Þetta gerir hann á svo ótrúlega sannfærandi hátt að það er eiginlega bara ótrúlegt. Reese Witherspoon sem leikur June Carter syngur líka fyrir sinn karakter og gerir það einnig virkilega vel. Reese hlaut óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki, en Joaquin fekk einnig tilnefningu fyrir besta leikara í aðalhlutverki. Þau bæði fengu svo Golden Globe verðlaun fyrir leik sinn auk þess sem myndinn var valin besta „tónlistar“myndin.Myndin halaði inn 190 milljónum dollara og þegar myndin var gefin út á DVD, bæði í einni og tveggja diska útgáfu, seldust þrjár milljónir eintaka fyrsta daginn.

Myndin fjallar um fyrri hluta ævi Johnny Cash, frá því að hann er ungur drengur þangað til hann er orðinn ungur maður, þá þjóðþekktur og mikils metinn. Líkt og við er að búast þá getur líf tónlistamanns ekki gengið í gegn stóráfallalaust. Ungur lendir hann í því að missa bróðir sinn, sem lést í hræðilegu slysi. Bróðirinn var alltaf augasteinn og stolt pabbans. Cash stóð því alltaf í skugga bróður síns og ekki hafði það góð áhrif á samband hans við föður sinn eftir að hann deyr. Tvítugur að aldri gengur hann í flugherinn og fer hann til Þýskalands. Þar unir hann sér ekki vel og finnur tóm í að spila á gítarinn sinn og semja lög. Þarna samdi hann laglínuna við lagið sem seinna varð Folsom prison blues. Hann dvelur ekki lengi í hernum og hættir þar eftir stutta dvöl. Cash fæst nokkuð við tónlistina næstu árin og svo hleypur loks á snærið hjá honum þegar hljómsveit sem hann stofnaði, fær samning. Líf Johnnys færist nú hröðum skrefum í átt til frægðar og ætla ég ekki að fara í gegnum allt það ferli hér í þessu bloggi. Það sem tvinnast í þessu ferli er hins vegar eitulyfjaneysla hans og vesen í kringum það, og samskipti hans við söngkonuna June Carter, sem var hafði verið þjóðþekkt söngkona allt frá því að hún var barnastjarna. Eftir mikinn darraðadans í lífi þeirra beggja enda þau saman og giftast þau, hún var því önnur kona Johnny. Ein af lokasenunum er svo frægu tónleikar sem hann hélt í Folsom fangelsinu en þeir voru teknir upp og gefnir út á sínum tíma.
Þessi mynd gefur okkur góða innsýn inn í fróðlegt líf tónlistamannsins Johnny Cash sem fór ekki alltaf auðveldustu leiðirnar í lífinu. Ég læt hér fylgja senu úr tónleikonum í fangelsinu. Ekki er erfitt að sjá að Joaquin Phoenix er hörku söngvari og frábær eftirherma.

1 comment: