Þessi náttúrulífsheimildarmynd er frá árinu 2007 en var fyrst að skríða í íslensk kvikmyndahús núna árið 2010. Hún kom í bíó 2009 í Bandaríkjunum en ekki veit ég ástæðurnar fyrir þessum seinagangi. Myndin er framleidd af BBC og er mjög í anda þáttaraðarinnar Planet Earth. Svona mynd er kannski ekki þessi hefðbundna mynd sem maður fer á til að sjá í bíó. Maður er vanur að horfa á þessa náttúrulífsþætti Attenboroughs heima í sjónvarpinu og þá er sjónarspilið magnað, jafnvel í 28 tommu túbusjónvarpi. Ég taldi því að það væri vel þess virði að fara og sjá svona mynd í risastóru tjaldi í öflugum gæðum. Attenborough kom þó ekki við sögu í talsetningu þessarar myndar en að þessu sinni var það Patrick Stuart eða prófersor Xavier úr X-Men myndunum.
Myndin olli mér engu vonbrigðum. Það er erfitt að segja frá því af hverju mér fannst hún góð. Þetta var einfaldlega myndataka og myndefni í sama gæðaflokki og þessar þáttaraðir sem maður hefur verið að horfa á (The Pacific og Planet Earth). Þessir menn virðast aldrei klikka og skilja mann alltaf eftir heillaðan uppúr skónum, enda eru myndirnar ávallt gríðarlega vandaðar og engu til sparað.
Það er erfitt að segja frá efni myndarinnar en það er eins og gefur að skilja mjög fjölbreytt, farið yfir marg og tekið á miklu. Þó eru í þessari mynd þrjár meginsögur sem verið er að segja. Það er líf ísbjarnar yfir árið og gríðarleg ferðalög fíla að vatnsvæði í Afríku. Auk þess er fylgst með ferðalagi hnúfubaksmóður sem eignast kálfa sinn í tærum sjó í hitabeltissjó Kyrrahafsins, en þar sem ekkert fæði er að fá þar tekur hún á sig lengsta ferðalag sem sjávarspendýr tekur sér fyrir hendur, að gríðarstórum ætistöðvum nálægt suðurheimsskautinu. Lífsbarátta ísbjörnsins er virkilega átakanleg, en í kjölfar hnatthlýnunar virðist hann eiga sér enga von. Ísbirnir eru á miklu undanhaldi og verða ekki til viltir í náttúrunni eftir nokkra tugi ára. Ísbjörninn í þessar mynd drepst svo eftir að hafa gert örvæntingafulla tilraun til að veiða sér rostungskóp til matar, eitthvað sem hann gerir ekki nema í ítrustu neyð. Ferð fílahjarðarinnar yfir sléttur Afríku eru virkilega hættulegar, en þeir ferðast vikum saman til að komast að mikilvægu vatnsbóli. Fílarnir leggja þessa ferð á sig vegna þess að þeir vita að er þarna á vissum tímum. Vegna hnatthlýnunar gætu þeir þó lent í því einn daginn að koma að lokuðum dyrum og engu vatni. Þeir myndu þá ekki eiga sér neina lífsvon og myndu drepast í hrönnum. Hnúfubakurinn gæti líka lent í vandræðum sökum hnatthlýnunar vegna þess að magn svifsins sem hann lifir á nálægt suðuheimsskautssvæðinu í kjölfar hækkandi hitastigs sjávar.
Eins og kannski sést þá tekur myndin mjög á hnatthlýnunni og ber þess merki í gegnum alla myndina. Persónunlega finnst mér þetta það eina sem ég get sett út á þessa mynd, því þessi hnatthlýnunartónn getur verið þreyttur þegar maður vill bara njóta fegurðarinnar sem myndefnið býður uppá. Myndin er því hugsuð sem ákveðin áróðustæki til að sýna fram á vandræðin sem fylgja hnatthlýnun og þær gersemar sem við komum til með að missa í kjölfarið. Það sem fór einnig smáí taugarnar á mér var að sumt af þessu efni var eitthvað sem notað var líka í Planet Earth og öðrum þáttum BBC. Maður var því búinn að sjá slatta af því sem kom fram í þessari mynd.
Fín færsla. 7 stig.
ReplyDelete