Wednesday, April 7, 2010

Paprika (mynd í tíma 24. mars)


Ég gerði þau mistök að lesa ekki neitt um þessa mynd áður en ég horfði á hana. Eina sem ég horfði á var þessi ruglingslegi TRAILER sem sagði mér ekki neitt um myndina. Allavega þá horfði ég á hana og fannst hún ruglingsleg en einnig mjög góð og vel unnin. Myndin fjallar um nokkrar persónur sem vinna hjá rannsóknarfyrirtæki. Ein persónan í myndinni, hann Tokita minnir mig, gerir tæki sem gerir þeim kleift að sjá inn í drauma þeirra sem tengjast vélinni. Það eru aðeins til þrjár gerðir að þessari vél, DC Mini eru hún kölluð í myndinni, og einhver er búinn að stela þeim. Sá sami er nú að ráðast á þær persónur sem komu að gerð tækisins, þær Chiba, stelpan sem heitir Paprika í draumaheiminum, Shima, rannsóknarmaður, og Tokita, feita nördið. Í myndinni kemur svo í ljós að stjóri fyrirtækisins sem þau þrjú vinna hjá er í raun andstæðingur þeirra allra. Hann er í hjólastól er var algjörlega á móti DC Mini frá upphafi. Það ætti ekki að ráðast inn á drauma annarra að hans mati. Loks þegar hann rænir DC Mini vélunum öllum þá veður hann heltekinn af valdagræðgi. Hann kemst inn í heim þar sem hann getur labbað aftur og langar ekki að fara úr honum, heldur reynir hann að blanda saman veruleikanum við draumaheiminn, hann vill stjórna öllu sem lifir eða kannski frekar öllu sem dreymir. Loka 30 mínúturnar í myndinni eru mjög ruglingslegar, þegar maður veit ekkert hvort persónurnar séu staddar í draumaheiminum eða veruleikanum. Draumarnir eru að blandast raunvöruleikanum. Sérstaklega þá sést hvað þessi mynd er flott á alla staði; teikningin, tónlistin og öll smáatriðin í henni.

Myndin er mjög óskýr og maður verður að fylgjast vel með til að öllum smáatriðunum. Maður þyrfti helst að horfa á hana aftur til að skilja hana betur. Ég var lengi að átta mig á því að Paprika og Chiba væru “sama” konan. Paprika er nefnilega Chiba í draumaheiminum. Paprika er fjöruga útgáfan af Chiba, hún leyfir sér allt og hefur engar hömlur á sér. Chiba hefur greinilega búið til Paprika sem annan persónuleika í örðum heim þar sem hún þyrfti ekki að vesenast við vísindi og nörda heldur gæti bara skemmt sér með engum áhyggjum. Skemmtilegast persónan í myndinn er samt án efa Toktia, offitusjúlingur sem er að öllum líkindum gáfaðasti maðurinn á jörðinni en hugsar samt eins og barn. Hugmyndin hans á bakvið DC Mini er afar saklaus, að tveir vinir geta verið í sama drauminum á sama tíma. Stjóranum finnst það hins vegar ekki og veit hversu miklar hættu þetta tæki getur skapað sem hann sýnir í myndinni.

Maðurinn sem leikstýrði myndinni heitir Satoshi Kon. Hann hefur leikstýrt einni annarri mynd sem ég veit eitthvað um, Tokyo Godfather. Ég hef heyrt að hún sé góð og jafnvel betri heldur en Paprika. Hann hefur gert fjöldan allan af anime-myndum og er einn af þekktustu anime-leikstjórum í Japan. Skemmtileg staðreynd, hann var einn af stofnendum JAniCA (Japan Animation Creators Association labour group). Þessi hópur manna berjast t.d. fyrir bættri aðstöðu teiknara og þeirra sem koma að gerð anime mynda.

1 comment: